Sænska knattspyrnufélagið Helsingborg tryggði sér sæti í úrvalsdeildinni þar í landi eftir árs fjarveru á ævintýralegan hátt þegar liðið bar sigurorð af Halmstad í síðari leik liðanna í umspili um laust sæti í deildinni á þriðjudagskvöld. Eftir að hafa tapað fyrri leiknum á heimavelli 0:1 vann Helsingborg frækinn 3:1-útisigur í síðari leiknum og 3:2-sigur samanlagt, þar sem tvö marka liðsins í þeim síðari komu undir lok leiks. Hafnfirðingurinn Böðvar Böðvarsson festi sig vel í sessi í vinstri bakvarðarstöðunni hjá Helsingborg og var einn lykilmanna þess í B-deildinni á tímabilinu.
„Tilfinningin er frábær. Við náðum að koma okkur í umspilið á mjög dramatískan hátt þar sem við vorum 0:2 undir og náðum að jafna undir lokin í lokaumferðinni. Svo í umspilinu töpuðum við náttúrlega fyrri leiknum en náðum síðan að klára þetta í gær [í fyrrakvöld]. Markmiðið var auðvitað að fara beint upp en við náðum því nú ekki alveg. Tímabilið var svolítið upp og niður hvað úrslitin varðar en að ná að klára þetta svona var bara ennþá betra,“ sagði Böðvar í samtali við Morgunblaðið.
Hann var farinn af velli vegna meiðsla þegar Helsingborg skoraði annað og þriðja mark sitt undir lok síðari leiksins. „Ég var alveg hakkaður í náranum eftir fyrri leikinn gegn Halmstad og náði að koma mér í ágætis stand fyrir síðari leikinn með hjálp sjúkraþjálfara, verkjalyfjum og öðru. Svo eftir 65 mínútur fann ég að ég gat ekki tekið sprett lengur, ég fékk einhvern smell í nárann og bað um skiptingu,“ útskýrði Böðvar og sagðist hafa átt í erfiðleikum með að fylgjast með restinni af leiknum af bekknum.
„Ég hef aldrei verið jafn stressaður og að vera á bekknum að horfa á þetta, ég var gjörsamlega að fríka út. Þegar við skoruðum annað markið þá tók ég sprettinn yfir til stuðningsmannanna og þá fékk ég bara ennþá meira í nárann. Því er ég svolítið hakkaður í dag en þetta var þvílík upplifun. Þetta var geggjað og gott að koma félaginu aftur þangað sem hann á heima. Þetta félag á ekki heima í næstefstu deild, það er nokkuð ljóst.“
Reglan um útivallarmörk var enn í gildi þar sem ný regla UEFA um afnám útivallarmarka hafði ekki tekið gildi þegar tímabilið í Svíþjóð byrjaði í apríl. Því hefði 2:1-sigur nægt Helsingborg en Böðvar sagði að Halmstad hefði komist nálægt því að jafna metin þegar leikar stóðu þannig.
„Það voru útivallarmörk ennþá og við vorum enn í mjög góðum séns þó við hefðum tapað fyrri leiknum 0:1. Halmstad fékk dauðafæri í stöðunni 2:1 í seinni leiknum þannig að það var ekki eins og þetta væri alveg komið þá, en svo gera þeir mistök undir lokin og við skorum og þá var þetta komið.“
Viðtalið við Böðvar má lesa í heild sinni í Morgunblaðinu í dag.