Böðvar ekki fengið nýtt samningstilboð

Böðvar Böðvarsson (fyrir miðju) fagnar sætinu í sænsku úrvalsdeildinni á …
Böðvar Böðvarsson (fyrir miðju) fagnar sætinu í sænsku úrvalsdeildinni á þriðjudagskvöld ásamt tveimur liðsfélögum. Ljósmynd/Helsingborg

Knattspyrnumanninum Böðvari Böðvarssyni hefur ekki verið boðinn nýr samningur hjá Helsingborg þrátt fyrir að hafa verið lykilmaður hjá liðinu sem tryggði sér sæti í sænsku úrvalsdeildinni á þriðjudagskvöld.

Því virðist hann vera á förum frá félaginu, en hann er einn fjögurra leikmanna sem eru nefndir í frétt á heimasíðu Helsingborg sem er einfaldlega titluð „Fjórir leikmenn yfirgefa Helsingborg.“

Þrátt fyrir það segir Andreas Granqvist, yfirmaður íþróttamála hjá Helsingborg, í samtali við heimasíðu félagsins að ekki sé búið að taka endanlega ákvörðun um framtíð Böðvars.

„Böddi hefur spilað 30 leiki fyrir okkur í ár og verið mikilvægur leikmaður fyrir okkur. Við höfum ekki tekið 100 prósent ákvörðun um framtíð hans en á þessari stundu höfum við ekki boðið honum framlengingu á samningi sínum.

Það felur einfaldlega í sér að honum er frjálst að skrifa undir hjá öðru félagi,“ sagði Granqvist.

Böðvar skrifaði undir tæplega eins árs samning, út nýafstaðið tímabil, við Helsingborg í mars á þessu ári. Var hann í byrjunarliðinu í öllum 30 leikjunum sem hann spilaði á tímabilinu.

Í samtali við Morgunblaðið í dag sagðist Böðvar opinn fyrir því að vera áfram hjá Helsingborg og að honum þætti líklegt að félagið myndi vilja halda honum í sínum röðum.

Líkurnar á því hafa minnkað miðað við fréttir dagsins en áhugavert verður að fylgjast með framhaldinu þar sem boð um framlengingu á samningnum er enn möguleg.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert