Hinn ungi og bráðefnilegi Kristian Nökkvi Hlynsson kom inn á sem varamaður hjá aðalliði hollenska stórveldisins Ajax í fyrsta skipti í gærkvöldi og stimplaði sig tafarlaust inn með því að skora.
Ajax tók á móti neðrideildarliðinu Barendrecht og vann að lokum þægilegan 4:0 sigur.
Á 82. mínútu kom Kristian inn á og sjö mínútum síðar, á 89. mínútu, skoraði hann fjórða mark Ajax. Mark hans kom úr vítaspyrnu.
Kristian er aðeins 17 ára gamall og hefur bæði leikið með varaliði Ajax í B-deild Hollands og unglingaliði þess á tímabilinu.
Í gærkvöldi var hann hins vegar í leikmannahópi aðalliðsins í fyrsta skipti og hlaut líkt og nokkrir aðrir leikmenn eldskírn sína.