Þeir kalla mig Gretu Thunberg fótboltans

Morten Thorsby fær gult spjald í leik með norska landsliðinu …
Morten Thorsby fær gult spjald í leik með norska landsliðinu í síðasta mánuði. AFP

Norski knattspyrnumaðurinn Morten Thorsby segir að liðsfélagar hans hjá ítalska félaginu Sampdoria kalli sig Gretu Thunberg, eftir loftslagsbaráttukonunni ungu frá Svíþjóð, þar sem hann láti til sín taka þegar kemur að aðgerðum í þágu loftslagsins.

„Í búningsklefanum er ég enn „græni strákurinn“ sem er hlegið að þegar ég gerist sjálfur sekur að gera eitthvað sem telst minna sjálfbært.

Á Ítalíu er ég kallaður Greta Thunberg fótboltans. Það er í góðu lagi enda dáist ég mikið að henni,“ sagði Thorsby í samtali við enska fjölmiðilinn The Guardian.

Hann kvaðst hafa íhugað það að hætta knattspyrnuiðkun þegar hann hafi áttað sig á umfangi loftslagsvandans. „Loftslagið er svo stórt mál og enginn knattspyrnumaður var að ræða um það. Það gerði mig sorgmæddan, jafnvel þunglyndan.

Ég hugsaði með mér: „Við stöndum andspænis risavöxnum vandamálum og hvað er ég að gera? Spila fótbolta.“ Það meikaði engan sens fyrir mér.“

Eftir nokkra íhugun fann Thorsby hins vegar að það væri mögulegt fyrir hann að gera eitthvað fyrir loftslagið í gegnum knattspyrnuheiminn.

Hann stofnaði í því skyni samtökin We Play Green, sem eru samtök ætluð knattspyrnumönnum sem vilja leggja sitt af mörkum í baráttunni gegn loftslagsvánni. Markmið samtakanna er einfalt: „Hreint vatn og hreint loft fyrir börnin okkar.“ Hver myndi ekki vilja það?“ velti Thorsby fyrir sér.

„Knattspyrnuiðnaðurinn er eftir á í þessum efnum þegar hann ætti að vera leiðandi. Það getur skipt miklu máli og jafnvel orðið hjálpræði okkar. Þrír og hálfur milljarður manna um allan heim horfa á fótbolta.

Það er ekkert félagslegt fyrirbæri sem hefur áhrif á jafn marga. Það eru engir stærri áhrifavaldar en fótboltastjörnur,“ sagði hann um möguleika knattspyrnuheimsins til þess að vekja athygli á vandanum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert