Þjálfari sakaður um að nauðga ungum drengjum

Patrick Assoumou Eyi.
Patrick Assoumou Eyi. Ljósmynd/@Footballogue

Knattspyrnuþjálfarinn Patrick Assoumou Eyi hefur verið sakaður um að nauðga ungum drengjum sem hann þjálfaði þegar hann var landsliðsþjálfari U17-ára landsliðs Gabon. Það er The Guardian sem greinir frá þessu.

Eyi er þjóðþekktur þjálfari í heimalandi sínu en hann lét af störfum hjá knattspyrnusambandi Gabon árið 2017. Hann hefur síðan þá starfað sem ráðgjafi efstu deildar karla þar í landi.

Einn af starfsmönnum gabonska knattspyrnusambandsins viðraði áhyggjur sínar af Eyi við forráðamenn sambandsins árið 2019 en var rekinn skömmu síðar úr starfi.

Gerði allt til að hjálpa fjölskyldunni

„Þú þurftir að stunda kynlíf með honum ef þú vildir halda sæti þínu í liðinu,“ sagði eitt af meintum fórnarlömbum þjálfarans í samtali við Guardian.

„Ég yfirgaf þorpið mitt í leit að betra lífi og til þess að hjálpa fjölskyldu minni. Ég ætlaði mér að verða atvinnumaður í fótbolta og ég gerði allt sem ég gat til þess að hjálpa mínum nánustu.

Hann nauðgaði mörgum ungum drengjum. Hann leitaði að nýjum fórnarlömbum út í sveit, þar sem fátæktin var sem mest. Hann fann líka drengi fyrir aðra yfirmenn hjá knattspyrnusambandinu. Þú þurftir bara að láta misnota þig ef þú vildir spila fyrir landsliðið . 

Þannig hefur það verið í mörg ár hjá knattspyrnusambandinu en við ætlum ekki að þegja lengur. Þessi rándýr, sem eru allt of mörg í fótboltaheiminum, þurfa að svara fyrir og fórnarlömbin eiga skilið réttlæti,“ bætti eitt af meintum fórnarlömbum Eyi við.

Engum fyrirspurnum svarað

Í frétt Guardian kemur fram að fjölmiðillinn hafi sent þjálfaranum ítrekaðar fyrirspurnir um málið en þeim hafi ekki verið svarað. 

Romain Molina, blaðamaður The Guardian, skrifaði fréttina en hann hyggst birta ítarlegar greinar um hin ýmsu ógeðfelldu mál tengd knattspyrnuheiminum á næstu mánuðum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert