Suður-Ameríkuþjóðirnar tíu verða þátttakendur í Þjóðadeild UEFA í karlaflokki í fótbolta frá og með árinu 2024, samkvæmt varaforseta Knattspyrnusambands Evrópu, UEFA, Pólverjanum Zbigniew Boniek.
Hann staðfesti við pólska netmiðilinn Meczyki að viðræður milli knattspyrnusambanda Evrópu og Suður-Ameríku um framkvæmd keppninnar væri á lokastigi.
Þegar liggur fyrir að Evrópumeistarar Ítalíu og Suður-Ameríkumeistarar Argentínu mætast í London 1. júlí 2022 í nokkurs konar meistarakeppni heimsálfanna tveggja.
„Þjóðadeildin 2022-23 verður sú síðasta í þessari mynd. Við ræddum við Knattspyrnusamband Suður-Ameríku og frá 2024 munu þjóðir álfunnar koma inn í keppnina. Hvernig fyrirkomulagið verður er enn í vinnslu. Tímaramminn fyrir landsleiki er það knappur að það er ekki hægt að sveigja það mikið til,“ sagði Boniek við Mecyzki.
Hann sagði ennfremur að sex bestu þjóðir Suður-Ameríku, Argentína og Brasilía ásamt væntanlega Kólumbíu, Síle, Perú og Úrúgvæ, myndu bætast við A-deild Þjóðadeildarinnar og hinar fjórar, Bólivía, Ekvador, Paragvæ og Venesúela, færu í B-deildina.
Greinin í heild sinni er í Morgunblaðinu í dag