Barcelona hafði betur gegn Elche, 3:2, í hörkuleik í spænsku 1. deildinni í fótbolta í kvöld. Ferran Jutglá og Gavi komu Barcelona í 2:0 á fyrstu 20 mínútunum og þannig var staðan í hálfleik.
Gestirnir í Elche neituðu hinsvegar að gefast upp og Jose Morente minnkaði muninn á 62. mínútu og strax í næstu sókn jafnaði Pere Milla. Barcelona átti aftur á móti lokaorðið því Nicolás González skoraði sigurmarkið á 85. mínútu.
Barcelona er í sjöunda sæti með 27 stig, 15 stigum á eftir toppliði Real Madrid.