Enskur landsliðsmaður skiptir um ríkisfang

Steven Caulker í leik með Tottenham á sínum tíma.
Steven Caulker í leik með Tottenham á sínum tíma. AFP

Knattspyrnumaðurinn Steven Caulker er búinn að skipta um ríkisfang, níu árum eftir að hann spilaði sinn fyrsta og eina A-landsleik fyrir England. Skiptir hann yfir til Afríkuþjóðarinnar Síerra Leóne.

Miðvörðurinn Caulker er búinn að fá grænt ljós frá Alþjóðaknattspyrnusambandinu, FIFA, og getur því tekið þátt með Síerra Leóne í Afríkukeppninni í Kamerún í næsta mánuði.

Eini landsleikur Caulker fyrir England, kom í vináttulandsleik gegn Svíþjóð haustið 2012 og tókst honum að skora í 2:4 tapi.

Þar sem um vináttulandsleik var að ræða gat Caulker skipt um ríkisfang, en föðurafi hans kemur frá Síerra Leóne. Einnig var mögulegt fyrir hann að spila fyrir Skotland þar sem amma hans er þaðan.

Caulker, sem er 29 ára gamall, er samningsbundinn tyrkneska stórveldinu Fenerbahce en leikur núna á láni hjá Gaziantep þar í landi.

Hann hefur meðal annars spilað með Tottenham, QPR, Southampton og Liverpool í ensku úrvalsdeildinni á ferlinum

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert