Danski knattspyrnumaðurinn Christian Eriksen hefur hafnað tilboðum frá FC Kaupmannahöfn og OB í heimalandinu. Eriksen er án félags eftir að samningi hans við Inter Mílanó var rift á dögunum.
Eriksen fór í hjartastopp í leik Danmerkur og Finnlands á EM í sumar og hefur ekki leikið síðan. Hann fékk bjargráð eftir atvikið en samkvæmt reglum á Ítalíu mega leikmenn deildarinnar ekki leika með bjargráð og því var ákveðið að rifta samningi leikmannsins.
Miðjumaðurinn hefur æft einn á æfingasvæði OB síðustu vikur, en samkvæmt Gazetta dello Sport vill Eriksen spila í sterkari deild áður en hann heldur heim til Danmerkur til að ljúka ferlinum.