Lewandowski sló annað met Müllers

Robert Lewandowski fagnar marki sínu ásamt liðsfélögum sínum í gær.
Robert Lewandowski fagnar marki sínu ásamt liðsfélögum sínum í gær. AFP

Pólski markahrókurinn Robert Lewandowski hirti annað áratuga gamalt met af þýsku goðsögninni Gerd Müller þegar hann skoraði eitt marka Bayern München í 4:0 sigri á Wolfsburg í þýsku 1. deildinni í knattspyrnu karla í gærkvöldi.

Lewandowski skoraði í gær sitt 43. deildarmark á árinu og bætti þannig met Müllers yfir flest mörk skoruð í þýsku 1. deildinni á einu almanaksári. Skoraði hann 42 deildarmörk, einmitt fyrir Bayern, árið 1972.

Fyrr í ár, undir lok síðasta tímabils, sló hann einnig met Müllers yfir flest mörk á einu tímabili í deildinni þegar hann skoraði 41 mark. Müller skoraði 40 mörk tímabilið 1971/1972.

Thomas Müller komst einnig á blað í gærkvöldi og var leikurinn sögulegur fyrir hann, en um var að ræða 400. deildarleik Müllers í þýsku deildinni.

Alla leikina hefur hann spilað með Bayern.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert