Real Madrid tapaði sínum fyrstu stigum síðan 3. október er liðið gerði markalaust jafntefli við Cádiz á heimavelli í spænsku 1. deildinni í fótbolta í kvöld.
Real hefur verið á mikilli siglingu og hafði liðið unnið tíu leiki í röð í öllum keppnum þegar kom að leik kvöldsins.
Þrátt fyrir mikla yfirburði tókst Real hinsvegar ekki að skora en liðið var 82% með boltann, átti 36 skot gegn 4 og gaf 804 sendingar gegn 175.
Real er enn í toppsæti deildarinnar, nú með 43 stig, sex stigum á undan Sevilla sem á þó leik til góða.