Fyrsta þrennan tekin af Alberti

Albert Guðmundsson fær ekki þrennuna skráða á sig.
Albert Guðmundsson fær ekki þrennuna skráða á sig. Ljósmynd/Alex Nicodim

Knattspyrnumaðurinn Albert Guðmundsson fær ekki þrennuna sem hann skoraði með AZ Alkmaar gegn Willem II í hollensku úrvalsdeildinni um nýliðna helgi skráða á sig. 

Leiknum lauk með 4:1-sigri AZ Alkmaar en Albert kom inn á sem varamaður á 61. mínútu og og skoraði þrjú mörk á þrettán mínútna kafla í síðari hálfleik.

Fyrsta mark Alberts kom úr vítaspyrnu en það mark hefur nú verið skráð sem sjálfsmark eftir að boltinn fór í stöngina, þaðan í bakið á Timon Wellenreuther og þaðan í netið. 

Landsliðsmaðurinn, sem er 24 ára gamall, þarf því að bíða lengur eftir sinni fyrstu þrennu í deildinni en hann hefur leikið með AZ Alkmaar frá árinu 2018.

Óvíst er hvað tekur við hjá leikmanninum eftir tímabilið þar sem samningur hans við hollenska liðið rennur út  næsta sumar og hefur hann ekki viljað skrifa undir nýjan samning.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert