Leikir verða ekki endurteknir í ensku bikarkeppninni í knattspyrnu karla í þriðju og fjórðu umferð keppninnar eins og tíðkast hefur og hefur sú ákvörðun verið tekin með það fyrir augum að minnka leikjaálag þátttökuliða.
Ljúki leik með jafntefli í enska bikarnum hefur ekki verið gripið til framlengingar, heldur endurtekningar á viðureigninni þar sem liðið sem átti útileik fær heimaleik í annarri tilraun.
Það verður þó ekki svo á þessu tímabili, ekki frekar en því síðasta, þar sem kórónuveirufaraldurinn hefur valdið fjölda frestana í ensku deildunum og því fyrirséð að leikir gætu hrannast enn frekar upp á einhverjum tímapunkti tímabilsins.
Enska knattspyrnusambandið ákvað þess í stað að gripið verði til framlengingar í leikjum þriðju og fjórðu umferðar bikarkeppninnar.