Leikjum frestað í neðri deildum Englands

Leikvangur Cardiff City.
Leikvangur Cardiff City. AFP

Búið er að fresta alls fimm leikjum í neðri deildum Englands, tveimur í B-deild og þremur í D-deild, sem áttu að fara fram á annan í jólum vegna kórónuveirusmita.

Leik Cardiff City og Coventry City í B-deildinni hefur verið frestað þar sem mikill fjöldi smita hefur greinst innan herbúða Cardiff, en leik liðsins gegn Derby County um liðna helgi var einnig frestað af þessum sökum.

Þá hefur leik Barnsley og Stoke City í sömu deild verið frestað þar sem Stoke glímir við svipað ástand og Cardiff þar sem fjöldi leikmanna og starfsfólk innan herbúða liðsins er smitað.

Leik Newport County gegn Forest Green Rovers hefur verið frestað í D-deildinni ásamt viðureignum Northampton Town gegn Walsall og Bradford City og Harrogate Town.

Fastlega er búist við því að fleiri leikjum sem eiga að fara fram á annan í jólum verði frestað þar sem Ómíkrón-afbrigði kórónuveirunnar skekur nú Bretlandseyjar og þar eru leikmenn og starfsfólk knattspyrnuliða síst undanskilin útsetningu fyrir smiti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert