Norðmaðurinn Kjetil Rekdal hefur verið ráðinn þjálfari norska knattspyrnuliðsins Rosenborg í karlaflokki og tekur hann við af Åge Hareide sem hætti störfum að loknu keppnistímabilinu 2021.
Milos Milojevic, þjálfari Hammarby til skamms tíma og áður þjálfari m.a. Víkings og Breiðabliks, virtist fyrr í mánuðinum vera á leið til Rosenborg en félagið hætti við að ráða hann á síðustu stundu. Í kjölfarið var honum sagt upp hjá Hammarby.
Rekdal á langan feril að baki í norska fótboltanum en hann var síðast þjálfari HamKam í B-deildinni. Hann hefur skrifað undir þriggja ára samning við Rosenborg.
Rekdal var sjálfur leikmaður með m.a. Borussia Mönchengladbach og var samherji Eyjólfs Sverrissonar hjá Herthu Berlín um síðustu aldamót en lauk ferlinum með Vålerenga á árunum 2000-2004. Hann skoraði 17 mörk í 83 landsleikjum fyrir Noreg.
Sem þjálfari hefur Rekdal lengst af verið í Noregi en var þó eitt tímabil með Lierse í Belgíu og eitt með Kaiserslautern í Þýskalandi. Hann þjálfaði Vålerenga í tvígang, samtals í níu ár, Aalesund og Start áður en hann tók á miðju tímabili 2020 við HamKam sem þá sat á botni B-deildarinnar. Liðið náði að lokum níunda sæti og vann síðan yfirburðasigur í B-deildinni undir hans stjórn í ár.
Tveir Íslendingar eru í röðum Rosenborg. Hólmar Örn Eyjólfsson leikur með aðalliði félagsins og Hannes Franklín Bergmann lék í ár með varaliði félagsins í C-deildinni.