Sjö mörk í stórkostlegum grannaslag

Leikmenn Levante sársvekktir eftir tapið gegn nágrönnum sínum í Valencia.
Leikmenn Levante sársvekktir eftir tapið gegn nágrönnum sínum í Valencia. AFP

Valencia hafði betur gegn Levante í Valencia-borgarslagnum í spænsku í 1. deildinni í knattspyrnu karla í kvöld þar sem sjö mörk litu dagsins í ljós í frábærum leik.

Útlitið var ansi gott fyrir botnlið Levante, sem hefði eflaust gjarna viljað ná í sinn fyrsta sigur á tímabilinu gegn nágrönnum sínum og erkifjendum, til að byrja með.

José Campana kom heimamönnum í Levante yfir á 21. mínútu þegar hann fylgdi eftir eigin vítaspyrnu sem Jasper Cillessen í marki Valencia hafði varið.

Skömmu síðar tvöfaldaði Roger forystuna og staðan orðin 0:2 eftir aðeins 24 mínútna leik.

Stuttu fyrir leikhlé náði hins vegar Goncalo Guedes að minnka muninn fyrir Valencia og staðan því 1:2 í hálfleik.

Í upphafi síðari hálfleiks fengu gestirnir í Valencia svo vítaspyrnu. Carlos Soler skoraði úr henni og staðan skyndilega orðin 2:2.

Soler var svo aftur á ferðinni á 72. mínútu og Valencia búið að snúa taflinu við.

Fimm mínútum fyrir leikslok skoraði Guedes svo annað mark sitt og staðan orðin 4:2.

Enis Bardhi minnkaði muninn fyrir Levante á fyrstu mínútu uppbótartíma venjulegs leiktíma en það var um seinan og 4:3-sigur Valencia því niðurstaðan.

Valencia fer með sigrinum upp í sjöunda sæti deildarinnar þar sem liðið er með 28 stig, tveimur stigum á eftir Rayo Vallecano sem er í fjórða sætinu, síðasta Meistaradeildarsætinu.

Levante situr enn eitt og yfirgefið á botninum með aðeins átta stig og engan sigurleik, sjö stigum frá öruggu sæti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert