Fulham hélt áfram að hiksta verulega í toppbaráttunni í ensku B-deildinni í knattspyrnu karla þegar liðið tók á móti Sheffield United í kvöld.
Sheffield United vann að lokum sterkan 1:0 sigur þar sem sigurmarkið kom strax á þriðju mínútu leiksins.
Það skoraði Iliman N’Diaye með glæsilegu skoti eftir frábært einstaklingsframtak.
Fulham var fyrir leikinn í kvöld búið að gera fjögur jafntefli í B-deildinni í röð og er því án sigurs í síðustu fimm deildarleikjum. Fyrir það hafði liðið hins vegar unnið sjö deildarleiki í röð.
Þrátt fyrir vont gengi að undanförnu er Fulham enn á toppi B-deildarinnar, tveimur stigum á undan Bournemouth í öðru sætinu, sem hefur gengið enn verr í síðustu leikjum. Bournemouth hefur tapað þremur og gert þrjú jafntefli í síðustu sex leikjum sínum.
Sheffield United siglir á meðan lygnan sjó um miðja deild og er í 11. sæti en er þó aðeins þremur stigum á eftir Stoke City í 6. sætinu, sem er síðasta umspilssætið um sæti í úrvalsdeildinni.