Leikmenn ítalska knattspyrnuliðsins Salernitana mættu ekki til leiks í dag en viðureign þeirra við Udinese í A-deildinni átti að hefjast klukkan 17.30.
Þrír leikmenn í hópi Salernitana greindust í gær með kórónuveiruna en það nægir ekki til að leik sé frestað, samkvæmt reglum ítalska knattspyrnusambandsins. Fyrir vikið flaug liðið ekki með áætlunarflugi frá Salerno, sem er í suðurhluta Ítalíu, til norðausturhluta landsins þar sem leika átti í Udine.
Í staðinn áttu þeir leikmenn sem voru leikfærir að fljúga með leiguflugi til Udine í morgun en þá gripu heilbrigðisyfirvöld í Salerno inn í og bönnuðu liðinu að fara. Leikmennirnir sem voru neikvæðir hefðu umgengist þá smituðu og yrðu skilyrðislaust að fara í sóttkví.
Leiknum var ekki frestað því skilyrði knattspyrnusambandsins voru ekki uppfyllt. Verði Udinese úrskurðaður 3:0 sigur verður vafalaust farið eftir fordæmi frá síðasta tímabili og nýr leikdagur fundinn. Þá var Napoli úrskurðað hafa tapað 3:0 fyrir Juventus og stig var tekið af liðinu til refsingar. Napoli hafði betur í áfrýjun og leikurinn var spilaður síðar.