Ég hræðist ekki samkeppnina

Sveindís Jane Jónsdóttir var útnefnd knattspyrnukona ársins á dögunum.
Sveindís Jane Jónsdóttir var útnefnd knattspyrnukona ársins á dögunum. mbl.is/Unnur Karen

Knattspyrnukonan Sveindís Jane Jónsdóttir hefur hafið æfingar með þýska stórliðinu Wolfsburg eftir að hafa verið á láni hjá sænska úrvalsdeildarfélaginu Kristianstad á nýloknu keppnistímabili. Fyrir ári síðan var hún keypt til Wolfsburg frá uppeldisfélagi sínu Keflavík og strax lánuð til Kristianstad. Undir handleiðslu Elísabetar Gunnarsdóttur aðalþjálfara gekk Sveindísi mjög vel á sínu fyrsta tímabili sem atvinnumaður er hún skoraði sex mörk og lagði upp önnur fjögur í 19 deildarleikjum þegar Kristianstad hafnaði í þriðja sæti deildarinnar og tryggði sér þannig sæti í Meistaradeild Evrópu á næsta tímabili.

„Það var bara geðveikt. Hún er frábær manneskja og þjálfari,“ sagði Sveindís í samtali við Morgunblaðið, spurð hvernig það hafi verið að vinna með Elísabetu á árinu. „Ég get alveg sagt að hún er einn af bestu þjálfurum sem ég hef fengið að vinna með. Ég tel að ég sé mjög heppin að hafa fengið að vera þjálfuð af henni, það eru ekkert allir sem fá það og ég er ótrúlega ánægð með að hafa fengið að vinna með henni og kynnast henni líka sem persónu.“

Á dögunum lét Sveindís hafa það eftir sér að hún hefði viljað skora meira fyrir Kristianstad en hún kvaðst þó heilt yfir ánægð með tímabilið í Svíþjóð. „Ég var bara mjög sátt með tímabilið. Þetta var bæði krefjandi og ótrúlega skemmtilegt líka. Auðvitað vill maður sem framherji alltaf skora meira en ég held að þetta hafi verið ágætt fyrsta tímabil úti í atvinnumennsku. Ég er bara ánægð með það og þetta fer allt saman í reynslubankann,“ sagði Sveindís.

Viðtalið má sjá í heild sinni á íþróttasíðum Morgunblaðsins í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert