Ítölsk lögregluyfirvöld gerðu húsleit á skrifstofu ítalska knattspyrnufélagsins Inter Mílanó í gær. Þetta tilkynnti ítalska félagið á heimasíðu sinni í dag.
Lögreglan á Ítalíu rannsakar nú hvort forráðamenn félagsins hafi falsað reikninga sem snúa að leikmannakaupum félagsins frá 2017 til ársins 2019.
Í yfirlýsingu Inter Mílanó kemur meðal annars fram að enginn starfsmaður félagsins hefði verið handtekinn í leitinni og að enginn hjá félaginu lægi undir grun.
Þá kemur einnig fram í yfirlýsingu félagsins að saksóknari í Mílanó hefði krafist þess að fá afhent umrædd gögn sem snúa að leikmannakaupum félagsins.
Ítölsk lögregluyfirvöld gerðu einnig húsleit hjá Juventus í síðasta mánuði vegna gruns um falsaða reikninga til þess að rétta af bókhald félagsins.