Það tók Sergio Ramos aðeins 133 mínútur að krækja sér í sitt fyrsta rauða spjald í frönsku 1. deildinni í knattspyrnu sem leikmaður París SG.
Spænski varnarmaðurinn hefur fengið rauða spjaldð oftast allra á þessari öld, 26 sinnum með Real Madrid. Hann lék í kvöld sinn annan leik fyrir PSG í deildakeppninni þegar liðið sótti Lorient heim, og hóf leik á varamannabekknum. Hann hefur verið frá keppni vegna meiðsla síðan í sumar og kom því ekkert við sögu í fyrstu 17 leikjum Parísarliðsins í deildinni.
Ramos var skipt inná í hálfleik en Lorient var þá með forystu, 1:0. Undir lok leiksins fékk Ramos gula spjaldið í tvígang, og var þar með rekinn af velli.
En eftir að leikmenn PSG voru orðnir tíu á vellinum náðu þeir að jafna metin í uppbótartímanum, 1:1. Mauro Icardi var þar að velli og PSG krækti því í stig sem virtist runnið liðinu úr greipum.
Forysta PSG í deildinni er nú þrettán stig en liðið hefur aðeins tapað einu sinni í 19 leikjum og er með 46 stig en Nice og Marseille koma næst með 33 stig.
Lorient, sem var nærri því búið að vinna í kvöld situr hinsvegar í nítjánda og næstneðsta sætinu með 16 stig en hefði með sigri komist í fimmtánda sætið.