Albert á leiðinni til Skotlands?

Albert Guðmundsson í leik Íslands og Rúmeníu í undankeppni HM …
Albert Guðmundsson í leik Íslands og Rúmeníu í undankeppni HM í vetur. Ljósmynd/Alex Nicodim

Samkvæmt mörgum breskum fjölmiðlum hafa stóru knattspyrnufélögin í Skotlandi, Celtic og Rangers, bæði áhuga á að krækja í Albert Guðmundsson, landsliðsmann hjá AZ Alkmaar í Hollandi.

Samningur Alberts við AZ rennur út eftir þetta tímabil og fram hefur komið að hann hafi ekki viljað semja að nýju við félagið. Skosku félögin eiga því möguleika á að fá hann til sín án greiðslu næsta sumar.  The Telegraph er meðal þeirra fjölmiðla sem segir að Celtic horfi hýrum augum til íslenska landsliðsmannsins.

Albert lék einmitt tvisvar gegn Celtic í haust þegar liðin mættust í umspili um sæti í riðlakeppni Evrópudeildarinnar. Celtic vann 2:0 í Glasgow en AZ vann 2:1 í Alkmaar. Celtic fór því í Evrópudeildina en AZ í riðlakeppni Sambandsdeildarinnar þar sem liðið er komið áfram í útsláttarkeppnina.

Albert lék í 72 mínútur í fyrri leiknum á Celtic Park en spilaði síðustu 20 mínúturnar í seinni viðureigninni í Alkmaar. Hann hefur skorað fjögur mörk í 17 leikjum AZ í úrvalsdeildinni í vetur og tvö mörk í átta Evrópuleikjum liðsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert