Heilbrigðisyfirvöld í Belgíu hafa ákveðið að knattspyrnuleikir í landinu fari fram án áhorfenda næsta mánuðinn vegna útbreiðslu kórónuveirunnar.
Bikarleikir sem fram fara í kvöld verða þeir síðustu í bili sem áhorfendur geta sótt en þar eiga Rúnar Alex Rúnarsson og félagar í OH Leuven m.a. útileik gegn Club Brugge í átta liða úrslitum bikarkeppninnar.
Síðasta umferð ársins í A-deild karla verður leikin á milli jóla og nýárs og verður án áhorfenda, eins og aðrir leikir til 28. janúar, en liðin verða reyndar í vetrarfríi frá 28. desember til 14. janúar. Fjórar umferðir sem leiknar eru á tveimur vikum eftir það verða hinsvegar spilaðar fyrir tómum stúkum.