Heimir Hallgrímsson, fyrrverandi landsliðsþjálfari karla í fótbolta, gæti orðið næsti þjálfari sænska úrvalsdeildarliðsins Mjällby. Heimir þjálfaði síðast Al-Arabi í Katar.
DV.is greinir frá að Mjällby sé eitt þeirra félaga sem hafa rætt við Heimi, en liðið endaði í níunda sæti sænsku úrvalsdeildarinnar á síðustu leiktíð. Fleiri félög á Norðurlöndunum eru áhugasöm um starfskrafta landsliðsþjálfarans fyrrverandi.
Hefur Heimir verið orðaður við félög í Bandaríkjunum, Tyrklandi, Rússlandi, Sviss og Íslandi síðustu mánuði, en Eyjamaðurinn er 54 ára gamall. Var hann aðstoðarþjálfari Lars Lagerbäcks á EM 2016 og aðalþjálfari á HM 2018.