Ítalska knattspyrnuliðið Salernitana komst ekki til leiks gegn Udinese í A-deildinni þar í landi á þriðjudagskvöldið þar sem það var stöðvað af heilbrigðisyfirvöldum í heimabyggð. Svo kann að fara að það hafi þegar leikið sinn síðasta leik á þessu keppnistímabili.
Salernitana sem leikur í A-deildinni í fyrsta sinn í 23 ár er nefnilega í þeirri sérstöku stöðu að félaginu hefur verið fyrirskipað að finna sér nýjan eiganda fyrir áramót, annars verði því vísað úr deildinni.
Ekki liggur fyrir hvort eða hvenær leikur Udinese og Salernitana fer fram. Það ræðst af því hvað gerist á næstu dögum hjá þessu litla félagi frá borginni Salerno á suðurhluta Ítalíu.
Þegar liðið vann sér sæti í A-deildinni síðasta vor fórnuðu höndum margir þeirra sem eru í forsvari fyrir ítalska fótboltann. Lið Salernitana var nefnilega á undanþágu í kjölfarið á atburðum fyrir tíu árum.
Þá varð félagið gjaldþrota og til bjargar því kom kaupsýslumaðurinn Claudio Lotito og gerðist aðaleigandi. Hann er reyndar líka eigandi Lazio frá Róm en það var ekki teljandi vandamál á þeim tíma. Salernitana þurfti að byrja frá grunni í D-deildinni eftir gjaldþrotið og fyrir Lotito var fínt að vera með svona venslalið sem hægt var nýta fyrir unga og efnilega leikmenn frá Lazio sem öðluðust reynslu með því að spila í neðri deildunum.
Salernitana var þarna orðið atvinnulið á ný og samkvæmt reglum ítalska knattspyrnusambandsins má enginn eiga meira en eitt atvinnulið í landinu. En Lotito fékk undanþágu til að bjarga Salernitana og eina vandamálið lengi vel var að passa upp á að liðin gætu ekki dregist saman í bikarkeppninni, og vona að sú staða kæmi aldrei upp að þau myndu mætast þar í úrslitaleik.
En síðasta vor gerðu allir sér grein fyrir því að fyrst Salernitana var búið að vinna sér sæti í A-deildinni yrði að gera eitthvað í málunum. Nú var ekki hægt að leyfa einum manni að eiga tvö félög í sömu deild. Lotito fékk að afhenda Salernitana sérstakri stjórn til skamms tíma, með því skilyrði að félagið yrði selt öðrum eiganda fyrir 31. desember 2021.
Gabriele Gravina, forseti ítalska knattspyrnusambandsins, kveðst enn vera hæfilega bjartsýnn á að málið verði leyst. „Ég er handviss um að við finnum kaupanda á næstu tíu dögum,“ sagði hann á þriðjudaginn.
„Það er óhugsandi að enginn vilji fjárfesta í svona heilbrigðu félagi,“ sagði Gravina ennfremur.
Nú bíða margir með öndina í hálsinum eftir því hverjar lyktir málsins verða. Fari svo að Salernitana verði rekið úr deildinni um áramótin strikast allir leikir liðsins út. Það hefur engin rosaleg áhrif á stigatöfluna því liðið situr á botninum með aðeins tvo sigra og átta stig úr átján leikjum. Salernitana hefur ekki skorað í síðustu fimm leikjum og fengið eitt stig í síðustu níu. Mögulega var 0:5-ósigur gegn Inter Mílanó á heimavelli kveðjuleikurinn fyrir Franck Ribéry og félaga en franski kantmaðurinn er kunnasti leikmaður þessa lítt þekkta liðs.
Sextán gallharðir stuðningsmenn Salernitana fóru þúsund kílómetra fýluferð til að sjá leikinn gegn Udinese og vissu ekki fyrr en þeir voru mættir á norðausturhorn Ítalíu (borgin Udine er í svipaðri stöðu á Ítalíukortinu og Raufarhöfn er á Íslandskortinu) að liðið sæti fast heima í Salerno.
Þeir vita ekki enn hvort þeir muni eiga lið til að styðja í deildinni þegar hún heldur áfram 6. janúar. Þá á Salernitana að taka á móti Arnóri Sigurðssyni, Bjarka Steini Bjarkasyni og samherjum þeirra í Feneyjaliðinu Venezia í 20. umferð A-deildarinnar. Og 15. janúar á Lazio að koma í heimsókn.