Knattspyrnudómarinn Rebecca Welch mun halda áfram að skrá sig í sögubækurnar þegar hún dæmir leik Plymouth Argyle og Birmingham City í þriðju umferð ensku bikarkeppninnar í knattspyrnu karla á nýju ári.
Welch verður þar með fyrsta konan til þess að dæma leik í þriðju umferð keppninnar, en hún hefur þegar dæmt í fyrstu umferðinni á þessu tímabili þegar hún var með flautuna í viðureign Banbury og Barrow í síðasta mánuði.
Á tímabilinu hefur hún dæmt fjóra leiki í ensku D-deildinni, tvo í bikarkeppni neðri deilda og dæmdi svo sinn fyrsta leik í ensku C-deildinni þegar hún var með flautuna í leik Morecambe og MK Dons fyrir tæpum mánuði.
Fyrr á árinu, í apríl, varð hún fyrsta konan til þess að dæma leik í enskri deildakeppni. Þá dæmdi hún leik Harrogate Town og Port Vale í D-deildinni.