Léttir þegar hann opnaði augun og bölvaði

Joakim Mæhle reynir að hjálpa Christian Eriksen eftir að hann …
Joakim Mæhle reynir að hjálpa Christian Eriksen eftir að hann hneig niður í leiknum gegn Finnum. AFP

Danski knattspyrnumaðurinn Joakim Mæhle segir að sér hafi létt ólýsanlega þegar Christian Eriksen opnaði augun og bölvaði þar sem hann lá á grasinu á Parken í sumar, þegar hann fór í hjartastopp í leik Danmerkur og Finnlands í úrslitakeppni Evrópumótsins í fótbolta.

Mæhle var fyrstur leikmanna á vettvang þegar Eriksen hneig niður og sagði frá upplifun sinni af atvikinu í heimildarmynd sem Danmarks Radio hefur gert um það.

„Það var alveg slokknað á honum, það sást á augunum. Ég vissi um leið að hann þyrfti að fá hjálp undir eins. Ég hef ekki áður verið í þessari aðstöðu en hef farið á námskeið í fyrstu hjálp, þannig að ég byrjaði á að fara með fingurna upp í munninn á honum til að koma í veg fyrir að hann myndi kyngja tungunni,“ segir Mæhle í myndinni.

Hann minnist þess enn fremur að hafa stirðnað upp Þegar sjúkraþjálfari danska liðsins, Morten Skjoldager, sagði að Eriksen andaði ekki. „Þegar Skjoldager sagði að hann andaði ekki sortnaði mér fyrir augum.“

Danska liðið fyrir leikinn gegn Finnum. Joakim Mæhle er númer …
Danska liðið fyrir leikinn gegn Finnum. Joakim Mæhle er númer 5 og Christian Eriksen númer 10 í fremri röðinni. AFP

Mæhle, sem leikur með Atalanta á Ítalíu, sagði síðan að sér hefði létt heldur betur þegar Eriksen komst til meðvitundar.

„Þegar Christian vaknaði sagði hann: „Hvað í andskotanum gerðist?“ eða eitthvað á þá leið. Mér var ólýsanlega létt því ég var búinn að upplifa það að sjá að hann andaði ekki, og svo að hann var allt í einu orðinn hann sjálfur á ný,“ sagði Joakim Mæhle.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert