Lögreglan biðst afsökunar á drápinu á Atkinson

Dalian Atkinson í leik með Aston Villa á sínum tíma.
Dalian Atkinson í leik með Aston Villa á sínum tíma. Ljósmynd/astonvilla.co.uk

Lögreglan í West Mercia á Englandi hefur beðið fjölskyldu Dalians Atkinsons, fyrrverandi knattspyrnumanns, formlega afsökunar á því að lögregluþjónn hafi orðið Atkinson að bana í ágúst árið 2016.

Lögreglumaðurinn Benjamin Monk varð í júní síðastliðnum fyrsti lögregluþjónninn í meira en þrjá áratugi sem er dæmdur fyrir manndráp við störf. Fékk hann átta ára fangelsisdóm.

Monk skaut Atkinson með rafbyssu og stuðaði hann í 33 sekúndur, sem er sex sinnum lengri tími en hefðbundið er hjá lögregluþjónum á Bretlandseyjum.

Monk sparkaði svo tvisvar í höfuð Atkinson þar sem hann lá, sem varð þess valdandi að knattspyrnumaðurinn fór í hjartastopp og lést.

Pippa Mills, sem tók við sem yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni í West Mercia í september síðastliðnum, skrifaði til fjölskyldu Atkinsons og baðst þar afsökunar fyrir hönd lögreglunnar.

„Lögreglubúningur veitir lögregluþjónum ekki þann rétt að hegða sér andstætt lögum og misnota völd sín.

Atferli Bens Monks var í hrópandi mótsögn við þá staðla og hegðun sem lögreglunni ber að sýna af sér og leiddi skiljanlega til vantrausts almennings í garð lögreglunnar,“ skrifaði Mills meðal annars.

Atkinson var öflugur sóknarmaður á knattspyrnuferli sínum og lék meðal annars með Aston Villa í ensku úrvalsdeildinni, þar sem hann skoraði meðal annars þetta stórkostlega mark haustið 1992:

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert