Tveir af þekktustu framherjum heimsfótboltans í dag hafa lýst sig andvíga þeim hugmyndum Alþjóðaknattspyrnusambandsins, FIFA, að heimsmeistaramót karla verði haldið á tveggja ára fresti í stað fjögurra.
Frakkinn Kylian Mbappé og Pólverjinn Robert Lewandowski deila þessari skoðun og staðfestu það báðir við fréttastofu AFP.
„HM er einstakt mót, vegna þess að það er haldið á fjögurra ára fresti. Ef það fer fram annað hvert ár verður það venjulegra, en heimsmeistaramót á ekki að vera venjulegt. Það er stórkostlegt og maður upplifir það kannski bara einu sinni á ævinni. Ef við viljum að áhugafólkið fái eitthvað sérstakt, þá er um að gera að það þurfi að bíða eftir því. Fólk vill sjá gæði og tilfinningar. Ef maður heldur heimsmeistaramót annað hvert ár þá minnka gæðin,“ sagði Mbappé.
„Það er ómögulegt bæði líkamlega og andlega að sýna alltaf allt sitt besta ef það er haldið heimsmeistaramót annað hvert ár,“ sagði Lewandowski.
Ljóst er að innan Evrópu og Suður-Ameríku er mikil andstaða við hugmyndina en í öðrum heimsálfum nýtur hún mikils stuðnings.