Fer ekki til Real Madrid í janúar

Kylian Mbappé fagnar marki fyrir PSG gegn sínu gamla félagi, …
Kylian Mbappé fagnar marki fyrir PSG gegn sínu gamla félagi, Mónakó. AFP

Franski knattspyrnumaðurinn Kylian Mbappé segir engar líkur á að hann gangi til liðs við Real Madrid í janúarmánuði eins og orðrómur hefur verið uppi um.

Mbappé er laus allra mála hjá París SG næsta sumar og getur þá farið án greiðslu hvert sem hann vill, og má ganga frá sínum málum frá og með janúarmánuði.

„Nei, ég fer ekki til Real Madrid í janúar. Ég er hjá PSG, ég er virkilega ánægður og mun ljúka tímabilinu þar, það er 100 prósent öruggt. Ég mun leggja allt í sölurnar til að vinna Meistaradeildina, frönsku deildina og bikarinn og gleðja stuðningsfólk okkar sem á það svo sannarlega skilið. Og ég tel að ég verðskuldi að vinna eitthvað stórt með PSG,“ sagði Mbappé við CNN í dag.

París SG og Real Madrid drógust saman í sextán liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu og eigast þar við í marsmánuði.

Mbappé er 23 ára gamall og hefur skorað 100 mörk í 124 deildarleikjum fyrir PSG síðan hann kom til félagsins frá Mónakó árið 2017, og þá hefur hann skorað 25 mörk í 42 leikjum í Evrópukeppni. Fyrir franska landsliðið hefur hann skorað 24 mörk í 53 landsleikjum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert