Hent úr bikarnum eftir ólæti

Stuðningsmenn slást á leiknum.
Stuðningsmenn slást á leiknum. AFP

Franska knattspyrnusambandið hefur rekið Lyon og Paris FC úr keppni í franska bikarnum vegna óláta stuðningsmanna er liðin mættust 17. desember síðastliðinn, en ekki tókst að klára leikinn.

Leikurinn fór fram á heimavelli Paris FC, sem leikur í 2. deildinni, en Lyon leikur í efstu deild. Var leiknum hætt í hálfleik vegna óláta í stuðningsmönnum. Hentu þeir m.a. blysum á völlinn, slógust í stúkunni og komust einhverjir stuðningsmenn inn á völlinn.

Lyon var sektað um 52.000 evrur og Paris FC fékk 10.000 evra sekt. Þá mega stuðningsmenn Lyon ekki mæta á útileiki það sem eftir lifir tímabilsins. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem stuðningsmenn Lyon kosta liðið sitt á leiktíðinni því eitt stig var tekið af Lyon í 1. deildinni vegna óláta í leik gegn Marseille.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert