Heimir og Milos í baráttu um þjálfarastöðu

Heimir Hallgrímsson var þjálfari Al-Arabi í hálft þriðja ár eftir …
Heimir Hallgrímsson var þjálfari Al-Arabi í hálft þriðja ár eftir að hann hætti með íslenska karlalandsliðið. Ljósmynd/Al-Arabi

Íþróttastjóri sænska knattspyrnufélagsins Mjällby staðfestir að Heimir Hallgrímsson og Milos Milojevic séu tveir af þeim þremur sem komi til greina sem næsti þjálfari karlaliðs félagsins sem leikur í úrvalsdeildinni.

Heimir hefur ekki þjálfað síðan hann hætti hjá Al-Arabi í Katar í vor og Milos, sem áður þjálfaði Víking og Breiðablik, er atvinnulaus eftir að hafa verið sagt upp störfum hjá Hammarby í Stokkhólmi. Þriðji kandídatinn er Svíinn Andreas Brännström sem síðast þjálfaði Hajduk Split í Króatíu.

„Það eru þessir þrír sem við erum að ræða við þessa dagana. Við erum langt komnir og ættum að geta gengið frá þessu á allra næstu dögum,“ sagði Hasse Larsson íþróttastjóri félagsins við Kristianstadsbladet. 

Milos kannast vel við sig hjá Mjällby en hann tók við liðinu árið 2018, eftir tólf ár á Íslandi og fór með liðið úr C-deildinni upp í úrvalsdeildina en hætti störfum eftir sigurinn í B-deildinni og gerðist aðstoðarþjálfari Rauðu stjörnunnar í Serbíu.

Mjällby hafnaði í níunda sæti sænsku úrvalsdeildarinnar á þessu ári.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert