Enska knattspyrnufélagið Brentford er með augastað á Jonasi Lössl, markverði danska úrvalsdeildarfélagsins Midtjylland. Það er talkSport sem greinir frá þessu.
Brentford leitar að nýjum markverði eftir að David Raya, sem verið hefur aðalmarkvörður enska liðsins, meiddist illa.
Patrik Sigurður Gunnarsson er samningsbundinn Brentford en hann eyddi síðasta tímabili á láni hjá Viking á Noregi. Patrik mun snúa aftur til Englands um áramótin.
Elías Rafn Ólafsson, sem hefur staðið á milli stanganna hjá íslenska landsliðinu í síðustu leikjum, er samningsbundinn Midtjylland, en hann og Lössl hafa háð harða baráttu um byrjunarliðssæti hjá Midtjylland á tímabilinu.
Fari svo að Lössl gangi til liðs við Brentford verður að teljast næsta víst að Elías Rafn muni eigna sér markvarðastöðuna hjá danska liðinu sem er í efsta sæti deildarinnar með 35 stig eftir fyrstu sautján leiki tímabilsins.
Elías Rafn hefur byrjað níu leiki í dönsku úrvalsdeildinni á tímabilinu og þrjá í Evrópudeildinni en hann var síðast í byrjunarliðinu gegn AGF hinn 7. nóvember í deildinni.