Eriksen kominn til Sviss

Christian Eriksen er farinn frá Inter Mílanó en ekki er …
Christian Eriksen er farinn frá Inter Mílanó en ekki er ljóst hvað hann gerir. AFP

Danski knattspyrnumaðurinn Christian Eriksen er kominn til Sviss þar sem hann æfir þessa dagana einn síns liðs á heimavelli Chiasso.

Eriksen, sem býr í Óðinsvéum í Danmörku, hefur að undanförnu æft á velli danska liðsins OB, sem er hans uppeldisfélag, en ekki liggur fyrir hvort hann stígur af alvöru inn á knattspyrnuvöllinn á ný. Eriksen fór sem kunnugt er í hjartastopp í leik Danmerkur og Finnlands í lokakeppni EM á Parken síðasta sumar og er búinn að ganga frá samningslokum hjá ítalska meistaraliðinu Inter Mílanó.

Eriksen getur ekki spilað á Ítalíu þar sem hann er með gangráð græddan við hjartað en með slíkan búnað má ekki spila þar í landi.

Danskir fjölmiðlar hafa að undanförnu orðað hann við bæði OB og FC Köbenhavn, líka hans fyrrverandi félög Ajax í Hollandi og Tottenham á Englandi, en einnig við Newcastle sem er orðið ríkasta félag heims en sárvantar leikmenn til að forða liðinu frá falli úr ensku úrvalsdeildinni.

Ítalinn Riccardo D'Anna hitti Eriksen í Chiasso og birti þessa mynd af þeim:

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert