Aleksander Ceferin, forseti Knattspyrnusambands Evrópu, UEFA, segir að hugmyndir Alþjóða knattspyrnusambandsins um að halda heimsmeistaramót karla á tveggja ára fresti séu vondar og geti valdið miklum skaða.
Ceferin ítrekaði afstöðu sína til málsins á ráðstefnu í Dubai í dag en UEFA og Conmebol, Knattspyrnusamband Suður-Ameríku, hafa lagst hart gegn hugmyndum FIFA sem Gianni Infantino, forseti FIFA, segir að myndu færa knattspyrnuheiminum 4,4 milljarða dollara í tekjuauka.
„Evrópa og Suður-Ameríka eru á móti þessum áætlunum og þetta eru einu heimsálfurnar sem hafa unnið heimsmeistaramót karla. Vandamálið er að til þess að heimsmeistaramót sé spennandi verður það að vera á fjögurra ára fresti.
Í öðru lagi, ef það yrði haldið á tveggja ára fresti myndi það eyðilegggja kvennafótboltann, vegna þess að þá væri það haldið sama ár og heimsmeistaramót kvenna. Þetta rækist líka á aðrar íþróttagreinar, á Ólympíuleikana. Þetta yrðu mikil mistök," sagði Ceferin.
„Þetta er einfaldlega vond áætlun og það mun ekkert verða af henni því þetta er vond áætlun, ekki vegna þess að við erum á móti henni," sagði forsetinn ennfremur.
„Hvers vegna eru Ólympíuleikarnir haldnir á fjögurra ára fresti? Vegna þess að það er viðburður sem þú þarft að stefna að, þú þarf að bíða eftir, og þú þarft að njóta. Og við erum með stærsta viðburðinn í fótboltanum. Hann verður að vera á fjögurra ára fresti. En þetta er mjög augljóst, 75 prósent fótboltaáhugafólks í heiminum myndi hafna því að vera með HM á tveggja ára fresti," sagði Aleksander Ceferin.