„Íslendingurinn“ yfirgefur sænsku meistarana

Jon Dahl Tomasson er farinn frá Malmö.
Jon Dahl Tomasson er farinn frá Malmö. AFP

Hinn íslenskættaði Jon Dahl Tomasson er hættur störfum sem þjálfari sænsku meistanna Malmö eftir tvö árangursrík ár hjá félaginu.

Malmö varð sænskur meistari bæði árin undir hans stjórn, vann með níu stiga mun árið 2020 en á markatölu í ár.

Malmö sendi frá sér tilkynningu í dag þar sem fram kom að Daninn hefði óskað eftir því að losna frá félaginu og það væri nú frágengið.

Í tilkynningunni segir Jon Dahl að það hafi verið erfitt að kveðja Malmö en gott að skilja við félagið á toppnum. „Ég er auðmjúkur, þakklátur og stoltur yfir því að hafa þjálfað eitt stærsta félag Norðurlanda. Og stoltur yfir því að á þessum tveimur árum skyldum við ná að skrifa nýjan og góðan kafla í sögu félagsins," er haft eftir honum í tilkynningunni.

Jon Dahl hefur verið orðaður við hollenska félagið Heerenveen en félagið harðneitaði þeim fréttum í vikunni.

Jon Dahl Tomasson var einn besti knattspyrnumaður Dana um árabil en hann deilir markameti landsliðsins, 52 mörk, með Poul Nielsen, og er fjórði leikjahæstur í sögu þess með 112 landsleiki. Hann var aðstoðarþjálfari danska landsliðsins í fjögur ár áður en hann tók við Malmö en þjálfaði í Hollandi frá 2012 til 2016. Sem leikmaður skoraði hann 180 deildamörk fyrir lið eins og AC Milan, Stuttgart, Feyenoord, Newcastle, Villarreal og Heerenveen.

Talsvert var fjallað um Íslandstengsl Jons Dahls á árum áður þegar hann lék með danska landsliðinu og var m.a. fyrirliði Dana í leik gegn Íslendingum á Laugardalsvellinum. Tengslin eru á þann veg að Halldór Tómasson, afi hans í föðurætt, flutti ungur til Danmerkur. Hann á nokkra fjarskylda ættingja á Akranesi, m.a. fótboltabræðurna gamalkunnu Ólaf Þórðarson og Teit Þórðarson.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert