Franski knattspyrnumaðurinn Ousmane Dembélé sem leikur með Barcelona er sagður hafa komist að samkomulagi við Juventus um að ganga til liðs við félagið næsta sumar þegar samningur hans verður runninn út.
Þetta fullyrðir Diario Sport á Spáni í dag en Dembélé er sagður hafa hafnað öllum boðum Barcelona um nýjan samning og sé staðráðinn í að yfirgefa félagið eftir tímabilið. Í janúar má hann ganga formlega frá sínum málum en þá er innan við hálft ár eftir af núgildandi samningi, og þá gæti hann gert formlegan samning við Juventus um að koma til félagsins næsta sumar.
París SG og Manchester United eru talin hafa mikinn áhuga á Dembélé og Diario Sport segir að franska félagið hafi beðið hann um að bíða eftir að sjá tilboðið þaðan áður en hann gangi endanlega frá málum við annað félag.
Dembélé er 24 ára gamall kantmaður og var einn af dýrustu knattspyrnumönnum heims þegar Barcelona keypti hann af Borussia Dortmund í Þýskalandi fyrir 105 milljón evrur í ágúst 2017. Hann hefur átt misjöfnu gengi að fagna en hefur samtals skorað 30 mörk í 126 mótsleikjum með Barcelona. Hann hefur aðeins leikið fimm leiki í spænsku 1. deildinni í vetur og þrjá í Meistaradeildinni.