Tíu leikmenn knattspyrnuliðs Barcelona hafa fengið kórónuveiruna síðustu daga og staðan er erfið hjá liðinu sem á að bregða sér til sólareyjunnar Mallorca á sunnudaginn kemur, 2. janúar, til að mæta heimamönnum í Real Mallorca í spænsku 1. deildinni.
Barcelona skýrði frá því í dag að Philippe Coutinho, Sergino Dest og Ez Abde hefðu allir greinst með kórónuveiruna en í gær voru sömu fréttir af Ousmane Démbélé, Samuel Umtiti og Gavi. Þá greindust þeir Clement Lenglet, Dani Alves, Jordi Alba og Alejandro Balde allir með veiruna fyrr í þessari viku.
„Leikmennirnir eru allir við góða heilsu og í einangrun á heimilum sínum," sagði Barcelona í yfirlýsingu í dag.
Barcelona er í sjöunda sæti spænsku 1. deildarinnar eftir talsvert basl á yfirstandandi tímabili.
Real Madrid er líka í vandræðum með veirusmit en Thibaut Courtois, Federico Valverde, Eduardo Camavinga og Vinicius Junior greindust allir með veiruna í vær.