Elías framlengir við Midtjylland

Elías Rafn Ólafsson í leik með íslenska A-landsliðinu í nóvember …
Elías Rafn Ólafsson í leik með íslenska A-landsliðinu í nóvember síðastliðnum. Ljósmynd/Alex Nicodim

Landsliðsmarkvörðurinn Elías Rafn Ólafsson er búinn að skrifa undir nýjan langtímasamning við danska úrvalsdeildarfélagið Midtjylland. Nýr samningur hans rennur út sumarið 2026.

Elías Rafn hefur alls leikið 13 leiki fyrir Midtjylland í öllum keppnum, alla á þessu tímabili, og staðið sig vel, auk þess sem hann eignaði sér byrjunarliðsstöðuna hjá íslenska A-landsliðinu í haust.

Um skeið hélt hann danska landsliðsmarkverðinum Jonas Lössl á varamannabekknum en Lössl byrjaði þó í undanförnum leikjum Midtjylland.

Allt útlit er hins vegar fyrir það nú að Elías Rafn fái byrjunarliðssætið á ný þar sem Lössl er á leið til enska úrvalsdeildarfélagsins Brentford á láni í janúar.

„Midtjylland er félagið mitt og það er frábær staður til að vera á, svo það er mjög góð tilfinning að skrifa undir nýjan samning hérna. Ég gæti ekki ímyndað mér betra félag til að spila fyrir á þessum tímapunkti á ferli mínum.

„Við settum saman gott plan þegar ég kom til félagsins og það hefur fengið mig til að þroskast mikið sem markvörður.

Ég hef fengið að takast á við nýjar áskoranir allan tíma minn hjá félaginu með tveimur vel heppnuðum lánsdvölum og svo í dönsku úrvalsdeildinni Superliga og Evrópudeildinni í haust, en ég er 100 prósent viss um að ég geti þróast enn meira hér hjá Midtjylland,“ sagði Elías Rafn í samtali við heimasíðu Midtjylland.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert