Gott útlit hjá Herði

Hörður Björgvin Magnússon í landsleik Íslands og Ungverjalands í Búdapest …
Hörður Björgvin Magnússon í landsleik Íslands og Ungverjalands í Búdapest haustið 2020. Ljósmynd/Szilvia Micheller

Hörður Björgvin Magnússon, landsliðsmaður í knattspyrnu, lætur vel af sér um þessar mundir. Árið sem er að líða var reyndar ekki skemmtilegt fyrir hann í boltanum því Hörður sleit hásin í apríl.

Aðgerðin og endurhæfingin heppnaðist vel og hann mun geta æft af fullum krafti með CSKA Moskvu þegar liðið hittist í janúar og undirbýr sig fyrir síðari hluta keppnistímabilsins.

„Ég fór í aðgerð í Finnlandi 9. apríl og þar var sérfræðingur í hásinameiðslum sem skar mig upp. Hann þykir einn sá besti í meiðslum eins og þessum og er með sambönd við stærstu félögin í Evrópu. Ousmane Dembélé var hjá honum mánuði fyrr sem dæmi. Ég get alveg mælt með þessum lækni núna því ég finn ekki fyrir neinu. Þetta gekk betur en ég vonaðist eftir og það kom ekkert bakslag í endurhæfingunni. Ég fór líka rólega í alla hluti,“ segir Hörður sem gat notað tækifærið og verið heima á Íslandi í nokkra mánuði.

„Ég var hér heima í fjóra mánuði í endurhæfingunni. Ég var úti fyrsta mánuðinn eftir aðgerðina en þá var að koma sumarfrí og ég flaug heim tveimur dögum fyrir síðasta leikinn fyrir sumarfríið. Þá tók ég fjóra mánuði hér heima og æfði alla daga með Rúnari [Pálmarssyni] sjúkraþjálfara landsliðsins.

Það var þægilegt að vera í sínu umhverfi hér heima. Það er léttara að vera nær sínu fólki og auðvelt að komast í hluti sem maður þarf á að halda. Maður á ekki marga að úti í Moskvu. Þegar ég kom aftur út var mér sagt að það yrði erfiðasti tíminn vegna þess að þá skapast hætta á öðrum meiðslum. Það gerðist ekki og ég er því mjög sáttur.

Ég var í raun leikfær fyrir síðasta leikinn fyrir vetrarfríið en það var ákveðið að sleppa því. Ég útskrifaðist fimm dögum fyrir síðasta leik sem var 11. desember. Leikurinn var spilaður í 16 gráðu frosti og því voru engir sénsar teknir.“

Viðtalið í heild sinni er í Morgunblaðinu í dag

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert