Heiðdís til Benfica

Heiðdís Lillýardóttir og Pauline Dudek í baráttunni í leik Breiðabliks …
Heiðdís Lillýardóttir og Pauline Dudek í baráttunni í leik Breiðabliks og PSG í október síðastliðnum. mbl.is/Unnur Karen

Knattspyrnukonan Heiðdís Lillýardóttir er gengin í raðir portúgalska stórliðsins Benfica þar sem hún mun leika á láni frá Breiðabliki út yfirstandandi keppnistímabil.

Heiðdís, sem er 25 ára gamall miðvörður, mun nú taka sín fyrstu skref sem atvinnumaður eftir að hafa leikið með Breiðabliki undanfarin fimm tímabil, en hún er uppalin hjá Hetti á Egilsstöðum og lék um tveggja ára skeið í millitíðinni með Selfossi.

Fyrst um sinn er um lánssamning að ræða út tímabilið en gangi Heiðdísi vel er sá möguleiki fyrir hendi að Benfica kaupi hana frá Blikum og geri lengri samning við hana.

Heiðdís kveðst mjög spennt fyrir því að reyna fyrir sér í Portúgal. „Ég er hrifin af öllu við félagið því allt sem ég hef séð hingað til er miklu stærra en ég er vön. Fólkið hérna hefur verið mjög indælt.

Ég er þegar búin að kynnast leikmönnum og starfsfólki og líður sem ég sé mjög velkomin. Ég er búin að fá að æfa með liðinu og sé það strax að það er mun meiri hraði og álag. Þetta verður góð áskorun,“ sagði hún í samtali við BTV, sjónvarpsstöð Benfica.

Hjá Benfica mun Heiðdís hitta fyrir Cloé Eyju Lacasse, kanadíska sóknarmanninn sem er með íslenskan ríkisborgararétt eftir að hafa leikið um árabil með ÍBV hér á landi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert