Cecilía Rán Rúnarsdóttir, markvörður enska úrvalsdeildarfélagsins Everton, fær ekki atvinnuleyfi á Englandi og þarf því að fara á láni til félags utan Bretlands.
Cecilía Rán var á mála hjá sænska úrvalsdeildarfélaginu Örebro á síðasta ári, var keypt til Everton í ágúst síðastliðnum en kláraði tímabilið með Örebro á láni.
Fyrirhugað var að hún færi beint til Everton nú í janúar en samkvæmt Fótbolta.net verður ekkert af því þar sem Cecilía Rán fékk ekki atvinnuleyfi. Kemur það til vegna þess að það er orðið erfiðara fyrir Evrópubúa að fá atvinnuleyfi í Bretlandi eftir að landið sagði skilið við Evrópusambandið, viðskilnaður sem er jafnan vísað til sem Brexit.
Samkvæmt heimildum Fótbolta.net æfði Cecilía Rán með franska fyrstudeildarliðinu Reims í desember og er félagið einn þeirra möguleika sem standa henni til boða að fara á láni til.
Cecilía Rán á fimm A-landsleiki að baki og hefur spilað með meistaraflokki undanfarin fimm ár þrátt fyrir að vera enn aðeins 18 ára gömul.