Landsliðskonan margreynda, Hallbera Guðný Gísladóttir, er formlega gengin í raðir Kalmars, sem er nýliði í sænsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu kvenna á komandi tímabili.
Hallbera lék með AIK, sem var einnig nýliði í deildinni á síðasta tímabili. Var hún einn lykilmanna liðsins sem stóð sig vel og var aldrei í fallbaráttu þrátt fyrir að vera nýliði.
Samningur Hallberu við AIK var aðeins til eins árs og því var henni frjálst að róa á önnur mið.
Kalmar staðfesti það skömmu fyrir jól að Hallbera hefði samið við liðið, en það hafnaði í öðru sæti sænsku B-deildarinnar á síðasta tímabili og komst þar með beint upp í úrvalsdeildina, en þrjú efstu lið deildarinnar fóru beint upp vegna fjölgunar liða í úrvalsdeildinni úr tólf í fjórtán.
„Ég er ánægð með að hafa gengið til liðs við Kalmar og spennt fyrir að hefja æfingar með liðinu.
Þetta verður erfitt tímabil en ef við leggjum hart að okkur getur þetta einnig verið árangursríkt tímabil,“ sagði Hallbera í samtali við heimasíðu Kalmars.
Hallbera, sem hefur einnig leikið með Piteå og Djurgården í sænsku úrvalsdeildinni á ferli sínum, mun hitta fyrir annan íslenskan leikmann, Andreu Thorisson, sem hefur leikið með Kalmar undanfarin tvö tímabil.