Sonni Nattestad, færeyski landsliðsmaðurinn í knattspyrnu sem lék um tíma með FH og Fylki, samdi við Jerv, nýliðana í norsku úrvalsdeildinni, um helgina, en samningnum var síðan rift um hálfum sólarhring eftir undirritun.
Sonni, sem er 27 ára miðvörður, hefur víða komið við á ferlinum og lék á síðasta tímabili með Dundalk á Írlandi.
Jerv skýrði frá því á heimasíðu sinni í dag að ákveðið hefði verið að rifta samningnum í samráði við Sonna Nattestad.
„Ástæða þess er mál sem leikmaðurinn hefur komið að og við hefðum átt að vera búnir að afla okkur upplýsigna um. Þetta mál hjá Nattestad er þess eðlis að við sem félag getum ekki tekið þátt í því eða tengst. FK Jerv biður alla hlutaðeigandi afsökunar á að hafa ekki unnið heimavinnu sína nægilega vel áður en skrifað var undir,“ segir á heimasíðunni.
Þar kemur fram að félagið og forráðamaður þess muni tjá sig um málið á morgun.