Alfreð fær aukna samkeppni

Ricardo Pepi hefur vakið athygli fyrir vasklega framgöngu þrátt fyrir …
Ricardo Pepi hefur vakið athygli fyrir vasklega framgöngu þrátt fyrir ungan aldur. AFP

Þýska knattspyrnufélagið Augsburg hefur fest kaup á hinum unga og efnilega bandaríska framherja, Ricardo Pepi. Hann er aðeins 18 ára gamall en hefur þegar fest sig í sessi sem byrjunarliðsmaður hjá bandaríska landsliðinu.

Pepi kemur frá FC Dallas, þar sem hann hefur leikið í MLS-deildinni í Bandaríkjunum frá því um sumarið 2019.

Hann lék 55 leiki og skoraði 15 mörk í deildinni og á auk þess sjö A-landsleiki fyrir Bandaríkin, þar sem hann hefur skorað þrjú mörk.

Alfreð Finnbogason fagnar marki í leik með Augsburg á sínum …
Alfreð Finnbogason fagnar marki í leik með Augsburg á sínum tíma. Ljósmynd/Augsburg

Pepi leikur í fremstu víglínu og eykst því samkeppnin um framherjastöðurnar hjá Augsburg enn frekar, en íslenski landsliðsmaðurinn Alfreð Finnbogason er einn af alls sjö leikmönnum sem leika í fremstu víglínu og eru á mála hjá félaginu.

Augsburg stillir iðulega upp tveimur framherjum en hefur Alfreð færst æ aftar í goggunarröðuninni á tímabilinu, þar sem tíð meiðsli hans hafa ekki hjálpað til.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert