Færeyski knattspyrnumaðurinn Sonni Ragnar Nattestad segir að atburðarás gærdagsins þar sem hann samdi við norska úrvalsdeildarfélagið Jerv en samningnum var síðan rift samdægurs, sé fáránlegasta atvik sem hann hafi nokkru sinni upplifað.
Forráðamenn Jerv sögðu í yfirlýsingu í gær að ástæða riftunarinnar hefði verið mál sem leikmaðurinn hefði komið að og félagið hefði átt að vera búið að afla sér upplýsinga um.
Þar var um að ræða mál frá árinu 2019 þegar Babacar Sarr frá Senegal, fyrrverandi liðsfélagi hjá Molde í Noregi, var ákærður fyrir nauðgun og Sonni átti að mæta fyrir rétt sem vitni. Hann mætti hinsvegar ekki í réttarsalinn og ekki reyndist unnt að leiða málið til lykta. Sarr er eftirlýstur af Interpol og ekkert hefur spurst til hans frá febrúar 2020.
Sarr lék með Selfyssingum árin 2011 og 2012 og Sonni var eitt tímabil, 2016, á Íslandi þar sem hann lék með FH og Fylki. Þeir voru báðir í röðum Molde á árunum 2016 til 2018 og Sarr reyndar einu ári lengur.
Sonni sagði í viðtali við VG í Noregi í dag að málið væri algjörlega út í hött. „Þetta er það fáránlegasta atvik sem ég hef upplifað. Fyrst sögðust þeir ætla að hætta við samninginn og að þeir hefðu ekkert vitað um þetta mál. En allir í Noregi þekkja málið. Því miður hefur þetta verið túlkað á þá leið að ég sé sekur um eitthvað en það er ég ekki. Ég er bara vitni. Þeir segjast ekki hafa unnið heimavinnuna sína en þetta er gjörsamlega galið - þeir stóðu ekki vel að þessu," sagði Sonni Ragnar.
„Það var ég sem ákvað að rifta samningnum. Ég sá að ég gæti ekki farið til Noregs og verið spurður 100 þúsund sinnum um þetta mál. Ég er bara kallaður til sem vitni og veit ekki hvað gerðist. Fjarvera mín frá réttinum byggðist á misskilningi. Ég var mættur til Noregs til að bera vitni en vegna rangs netfangs fékk ég ekki tilkynningu um að málinu hefði verið frestað," sagði færeyski landsliðsmaðurinn ennfremur.