Sevilla virðist ætla að verða eina liðið til að veita Real Madrid keppni um spænska meistaratitilinn í vetur en Sevillamenn náðu í kvöld að nýta sér óvæntan ósigur Real gegn Getafe um helgina.
Sevilla sótti heim Cádiz og knúði fram sigur, 1:0, þar sem Argentínumaðurinn Lucas Ocampos skoraði sigurmarkið á 58. mínútu eftir sendingu frá Ivan Rakitic.
Sevilla er þá komið með 41 stig eftir 19 leiki og á leik til góða á Real Madrid sem er með 46 stig eftir 20 leiki. Real Betis er síðan með 33 stig í þriðja sæti deildarinnar, rétt á undan Atlético Madrid, Barcelona. Rayo Vallecano og Real Sociedad.'
Villarreal kemur síðan í áttunda sæti með 28 stig eftir stórsigur á Levante í kvöld, 5:0. Gerard Moreno skoraði tvö markanna.