Færeyski miðvörðurinn Sonni Ragnar Nattestad, sem í gær samdi við norska úrvalsdeildarfélagið Jerv áður en samningnum var rift síðar sama dag, átti að vera lykilvitni í nauðgunarmáli senegalska miðjumannsins Babacars Sarrs.
Sonni og Sarr voru liðsfélagar hjá norska Molde um skeið og þóttu góðir vinir.
Sonni, sem lék um skeið með FH og Fylki hér á landi, átti að bera vitni fyrir rétti gegn Sarr í byrjun árs 2019 og var eitt lykilvitna saksóknara. Hann ákvað hins vegar að spila frekar æfingaleik með danska liðinu Fredericia, þar sem hann var á mála á þeim tíma, og mætti því ekki fyrir rétt.
Það gerði Sarr, sem lék með Selfossi fyrir um áratug, ekki heldur og flúði svo frá Noregi.
Af þeim sökum tókst ekki að leiða málið til lykta og er Sarr, sem lék í Hvíta-Rússlandi og Sádi-Arabíu eftir að hann fór frá Molde, nú eftirlýstur af alþjóðalögreglunni Interpol, sem biðlar til hverrar þeirrar þjóðar sem verður vör við Sarr að framselja hann til Noregs svo unnt sé að sækja hann til saka þar.
Hefur ekkert spurst til Sarrs síðan hann yfirgaf sádiarabíska liðið Damac í febrúar árið 2020.
Í yfirlýsingu frá Jerv í gær þar sem greint var frá því að ákveðið hefði verið að hætta við að semja við Sonna sagði:
„Ástæða þess er mál sem leikmaðurinn hefur komið að og við hefðum átt að vera búnir að afla okkur upplýsinga um. Þetta mál hjá Nattestad er þess eðlis að við sem félag getum ekki tekið þátt í því eða tengst því. FK Jerv biður alla hlutaðeigendur afsökunar á að hafa ekki unnið heimavinnu sína nægilega vel áður en skrifað var undir.“