Stærsti bitinn sem er með lausan samning

Jón Dagur Þorsteinsson í leik Íslands og Armeníu á Laugardalsvellinum …
Jón Dagur Þorsteinsson í leik Íslands og Armeníu á Laugardalsvellinum í haust. mbl.is/Unnur Karen

Jón Dagur Þorsteinsson landsliðsmaður í knattspyrnu er að mati Tipsbladet í Danmörku einna áhugaverðastur af þeim leikmönnum sem verða með útrunna samninga að þessu keppnistímabili loknu.

Jón Dagur er í stóru hlutverki hjá AGF frá Árósum en hann leikur nú sitt þriðja tímabil með félaginu. Eins og aðrir sem verða samningslausir í sumar má hann nú frá og með áramótum hefja viðræður við önnur félög.

Tipsbladet birti í kvöld tíu leikmenn sem blaðið metur þá áhugaverðustu af þeim sem eru nú á lausu og segir um Jón Dag:

„Kannski er þetta stærsti bitinn sem er með lausan samning. Hann hefur áður verið samningsbundinn félagi í ensku úrvalsdeildinni og í Danmörku hefur hann verið bæði marksækinn og sterkur. Hann er skapmikill, sem hentar kannski ekki alls staðar, en um hæfileika hans sem fótboltamanns þarf enginn að efast.“

Jón Dagur er 23 ára gamall, ólst upp hjá HK og lék fyrst 15 ára gamall með meistaraflokki Kópavogsliðsins. Hann fór til Fulham 2015 og var þar í þrjú ár þar sem hann lék með unglinga- og varaliði, og var síðan lánaður til Vendsyssel í dönsku B-deildinni eitt tímabil áður en hann gekk til liðs við AGF árið 2019. Hann hefur leikið 78 leiki með AGF í úrvalsdeildinni og skorað í þeim 17 mörk, auk fjölmargra stoðsendinga.

Hann var fyrirliði 21-árs landsliðsins sem lék í lokakeppni EM snemma á þessu ári hefur fest sig í sessi í A-landsliðinu þar sem hann hefur skorað tvö mörk í sextán leikjum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert