Magnað að vera seldur en erfitt að fara

Ísak Bergmann Jóhannesson í landsleik gegn Rúmeníu í haust.
Ísak Bergmann Jóhannesson í landsleik gegn Rúmeníu í haust. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ísak Bergmann Jóhannesson landsliðsmaðurinn ungi í knattspyrnu segir að það hafi verið erfitt að yfirgefa sænska félagið Norrköping og kannski komi hann aftur þangað síðar.

Staðarblaðið NT í Norrköping fjallar um Ísak í dag og söluna á honum til FC Köbenhavn fyrir 30 milljónir sænskra króna, um 430 milljónir íslenskra króna, en í dönsku höfuðborginni hefur hinn 18 ára gamli Skagamaður strax fest sig vel í sessi og skorað tvívegis í fimmtán mótsleikjum fram að áramótum.

„Þetta hafa reynst vera góð skipti, og einmitt það sem ég var að leita eftir. Það voru alls konar sögur um liði í stærri deildum en þá hefði ég tekið áhættuna á að spila ekki eins mikið og raunin hefur verið hérna. Það er frábært að hafa fengið tækifæri í Evrópuleikjunum," segir Ísak við NT en hann er með FCK í öðru sæti dönsku úrvalsdeildarinnar og liðið er komið í 16-liða úrslit Sambandsdeildar Evrópu eftir að hafa unnið sinn riðil fyrir áramótin.

„Þessu hafa fylgt margs konar tilfinningar. Það er magnað að hafa verið seldur en það var mjög erfitt að fara. Fótboltinn í Norrköping er sérstakur fyrir mig og það má vel vera að ég eigi eftir að koma aftur þangað," segir Ísak í viðtalinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert